Samgöngufélagið hefur fengið afhent minnisblað sem Verkfræðistofan Efla ehf. vann fyrir félagið um búnað til að ná megi útvarpssendingum í Bolungarvíkurgöngum.  Á minnisblaðinu, sem gert var í ágúst 2016, kemur fram að fá megi búnað sem tengist búnaði sem fyrir er í göngnum, ná megi þremur útvarpsrásum og vera með svokallað yfirkall (útsendingar eingöngu bundnar við göngin frá t.d. Neyðarlínunni) fyrir um 9 m.kr.  Er kostnaður við uppsetningu búnaðarins innifalinn í þeirri fjárhæð.

Minnisblaðið hefur verið sent Vegagerðinni, Bolungarvíkurkaupstað og Ísafjarðarbæ til kynningar. Má gera ráð fyrir næstu skref verði að semja við Vegagerðina um heimild til að fá að setja þennan búnað upp og að Vegagerðin taki að sér að bera ábyrgð á rekstri hans enda takist að finna fjármuni til verksins, en eins og reglum er nú háttað er ekki gert ráð fyrir að útvarpssendingar náist í veggöngum hérlendis, enda næst útvarp hvergi í veggöngum hér eftir því sem næst verður komist nema Hvalfjarðargöngum .

Sjá má minnisblaðið hér.